Landslag - Hlaðan að Hjalla
LANDSLAG OG ÞÁTTTAKA
Kvöldmáltíð í Kjós – Stefnumót við landslag
Föstudaginn 10. nóvember kl. 19.30 í Hlöðunni að Hjalla
Öllum Kjósverjum, íbúum og öðrum sem dvelja í Kjósinni, er boðið til kvöldmáltíðar og stefnumóts við landslag föstudagskvöldið 10. nóvember.
Stefnumótið er hluti af verkefninu Landslag og þátttaka, sem er styrkt af Skipulagsstofnun og unnið samhliða aðalskipulagsvinnu Kjósarhrepps. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á gildi og gæði landslags og þróa leiðir til þess að auka þátttöku almennings í því að móta þessi gildi og gæði til framtíðar. Að verkefninu standa Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur, Edda Ruth Hlín Waage landfræðingur, Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir heimspekingur, Gunndís Ýr Finnbogadóttir myndlistarmaður, Helga Ögmundardóttir mannfræðingur og Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður.
Síðastliðinn vetur var Kjósverjum boðið til þátttöku í fyrsta hluta verkefnisins. Rætt var við fjölbreyttan hóp um 30 einstaklinga sem búa í Kjósinni eða dvelja þar í sumarhúsum sínum um gildi og gæði landslagsins, breytingar, áskoranir og framtíðarsýn.
Nú er komið að öðrum hluta sem snýr að samtali við enn fleiri, þar sem boðið verður til kvöldverðar. Þar verða kynntir helstu þræðir þess sem fram kom í samtölunum og leitað eftir þátttöku enn fleiri Kjósverja í áframhaldandi samstarfi og samtali.
Landslag er orð sem vísar í senn til þeirra náttúrulegu og manngerðu þátta sem móta landsvæði og til upplifunar okkar og skynjunar á því hvernig þessir þættir virka á okkur sem heild og hvaða áhrif þeir hafa á okkur og lífsgæði okkar. Sífellt meiri áhersla er lögð á þau gildi sem landslag hefur og þau gæði sem það getur skapað okkur. Aukin þátttaka fólks sem hefur þekkingu á sínu landsvæði skiptir höfuðmáli og getur haft jákvæð áhrif á mótun framtíðarsýnar fyrir sveitarfélög. Markmið verkefnisins Landslag og þátttaka er að finna þessari þátttöku opinn farveg. Verkefnið í Kjósinni er tilraunaverkefni sem skapar grundvöll til þess að halda áfram að þróa þennan farveg á fleiri svæðum í framhaldinu. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á landslagid.is
Allir unnendur Kjósarinnar eru hjartanlega velkomnir Til að hægt sé að áætla hæfilegt magn veitinga væri gott að sem flestir gætu skráð sig fyrirfram með því að senda tölvupóst á landslag@lhi.is eða hringja í síma 865-7580. Ath. skráning er þó alls ekki forsenda þátttöku.
Dagskrá kvöldsins: 19.30 - Húsið opnað 20.00 - Kynning á verkefninu Landslag og þátttaka 20.10 - Kvöldmáltíð í boði verkefnisins: Fiskisúpa/grænmetissúpa 20.30 - Kynning á niðurstöðum samtala við einstaklinga 20.50 - Umræður í hópum 21.20 - Kaffi og heimabakaðar kökur 21.30 - Áframhaldandi umræður 22.00 - Formlegri dagskrá lýkur – létt stemming á barnum tekur við
Fleiri fréttir
-
26. júl 202426-07-24 10:06
-
01. júl 202401-07-24 22:31
-
24. maí 202424-05-24 10:26
-
27. sep 202327-09-23 09:34
-
04. júl 202304-07-23 10:15
-
19. maí 202319-05-23 15:39
-
17. apr 202317-04-23 14:33
-
04. apr 202304-04-23 10:53
-
07. mar 2023Tónleikar
-
05. mar 202105,03,2021